Saturday, July 10, 2010

Hér má sjá myndir teknar í Danmörku í júlí 2010

1. dagur
Flogið til Álaborgar snemma morguns og lent hér undir hádegi að dönskum tíma. Yndislegt veður, hlýtt og sólskin. Leigðum bíl á vellinum og vorum ekki nema smástund að finna íbúð tvíburanna á Annebergvej. Frábær staður, örstutt frá öllu sem markvert er hér í Álaborg. Eftir að hafa komið okkur fyrir í íbúðinni fórum við á rúntinn til að kanna umhverfið. Skruppum niður í bæ, versluðum nauðsynjar og mat. Fundum líka frábæra verslunarmiðstöð þar sem við fengum svo góða þjónustu í Intersport að annað eins höfum við ekki upplifað. Albert labbaði líka út með forláta íþróttaskó og sérhönnuð innlegg. Allt annað líf :-)

2. dagur
Þungbúið en við létum það nú ekki á okkur fá og keyrðum upp til Hirtshals hér aðeins norðar. Fórum þar á Nördsjö safnið sem er algjörlega stórkostlegt safn helgað Norðursjó og lífríki hans. Dvöldum þar lungann úr deginum og sáum kafara gefa fiskunum í risa fiskabúrinu og þegar selunum var gefið auk þess sem nóg var við að vera fyrir fróðleiksfús ungmenni á hinum fjölmörgu stöðvum í safninu. Eitt albesta safn sem hægt er að heimsækja með börn og unglinga. Þegar leið á daginn var farið að mígrigna þannig að ekki var fýsilegt að vera mikið útivið. En síðdegis stytti þó upp þannig að við röltum meðfram ströndinni og klifum meira að segja upp í vitann við Hirtshals. Frábært útsýni yfir norður Jótland og ekki síður eftir ströndinni þar sem Þjóðverjar byggðu gríðarlega marga bunkera eða varðskýli á ströndinni. Fjöldinn er ótrúlegur og ekki síður umfang bygginganna. Fyrr má nú leggja á sig....
Notuðum síðan tækifærið og óðum í Vesterhavet um kvöldmataleytið en þá var veðrið farið að verða betra.

3. dagur
Vöknuðum snemma í brakandi blíðviðri og lögðum af stað upp til Skagen. Byrjuðum á Grenen sem er efsti punktur Danmerkur. Þegar þangað var komið var hitinn orðinn ansi mikill þannig að það var ekkert vit að borga fyrir traktorsferð út á tangann. Röltum því ásamt fjölda annarra í flæðarmálinu út á Grenen og notuðum labbitúrinn í sólbað í leiðinni. Birtan þarna uppfrá er stórkostleg og ekki skrýtið að þeir kalli þetta svæði "lysets land". Við höfum komið þarna áður en tilfinningin er alltaf jafn góð, þegar staðið er með fót í sitthvoru hafinu, Kattegat og Vesterhavet. Öldurnar koma beggja vegna að og brotna á fótleggjunum. Mjög skemmtileg upplifun. Eftir gönguna var ferðalöngum orðið alltof heitt þannig að þá var lagst í sólbað í sandhólana og nestið borðað eins og sönnum Dönum sæmir. Lalli hatar reyndar sandinn en okkur hinum þótti hann yndislegur, kannski smaug hans aðeins og víða en hvað með það... Eftir sólbökun í þónokkurn tíma var farið í stríðssafn, nema hvað :-) Sú sem þetta skrifar stoppaði nú ekki lengi í þýska varðbyrginu sem hýsti safnið en nóg til að upplifa einu sinni enn viðbjóðinn og andstyggðina sem fylgir stríði. Karlarnir á mínu heimili er helteknir af áhuga á seinni heimstyrjöldinni og vita orðið allt sem vert er að vita um hana. Svona söfn því heimsótt hvar sem við drepum niður fæti. Rúlluðum síðan niður til Skagen þar sem við heimsóttum Skagen museum. Það safn hýsir fallegustu málverk sem til eru að mínu mati. Einstök öll með tölu. Þar fengum við vægt áfall þegar viðvörunarkerfið fór í gang og vörðurinn kastaði sér á sænskan strák sem fannst við hæfi að pota í málverkið "Sankt Hans bålet". Við fengum meira áfall heldur en kærulausu foreldrarnir og aumingja vörðuinn var í losti lengi á eftir....
Eftir safnaheimsóknina var farið til bakarans, kolvetnakúrinn sem sagt gufaður upp hér í Danaveldi! Albert kleif uppá topp í turninum í miðbænum og tók nokkrar vænar myndir.

Á leiðinni heim til Álaborgar komum við við í Råbjerg mile sem við höfum ekki áður skoðað. Það er risastór sandalda sem minnir einna helst á Afríku. Þar gengum við í óratíma í sandinum og leið eins og við værum í Sahara, gaman að því. Hitinn var líke ekki ósvipaður og sólin brakandi yfir höfðum okkar. Renndum að lokum niður í Kandestederne þar sem við fórum á ströndina sem er afskaplega skemmtileg og við Albert skelltum okkur í sjóinn. Heitur og góður þrátt fyrir að klukkan væri orðin 7.

Dóluðum síðan til Álaborgar þar sem beið okkar sjóðheit íbúðin og engin loftkæling...